There are no translations available.

Fréttir úr Elliðaánum - Teljarinn í beinni, gönguseiðin, laxgengd og bláleitur lax

Fiskteljarinn í beinni

Laxfiskar hafa nú tekið upp þá nýbreytni að vera með beina útsendingu kvikmyndar úr fiskteljaranum í Elliðaánum. Auk þess er skjámynd fiskteljarans varpað í rauntíma út á netið svo fylgjast megi með göngu fiska um teljarann. Þessa útsendingu má sjá ef farið er á tengilinn hér.

Mikill fjöldi gönguseiða 2014 gefur von um góða veiði 2015

Í byrjun sumars héldu gönguseiði laxins í miklu magni til sjávar. Gildruveiðar á gönguseiðum í maí og júní skiluðu meiri fjölda en áður hefur sést á þeim 28 árum sem samfellt hefur verið fylgst með útgöngu seiðanna í Elliðaánum frá og með 1988. Alls veiddust ríflega 5 þúsund seiði við þá vöktun og af þeim voru einstaklingsmerkt um 4 þúsund seiði sem um leið er mesti fjöldi náttúrulegra gönguseiða sem hefur verið einstaklingsmerktur úr árlegri göngu laxveiðiár hérlendis.  Uppistaðan í göngunni voru tveggja ára seiði frá hrygningunni 2011 en strax við mælingar á seiðabúskap í Elliðaánum haustið 2012 fengust fögur fyrirheit varðandi þann árgang. Þá var fjöldi seiða árgangsins sem þá samanstóð af sumargömlum seiðum margfaldur miðað við meðaltal 28 viðmiðunarára (1981-1982 og 1987-2011). Við seiðamælingar haustið 2013 sýndi sig að árgangurinn var enn mikill að burðum því þá voru eins árs seiðin um tvöfalt fleiri að meðaltali en áðurnefnd viðmiðunarár en nánari upplýsingar má finna í skýrslu Laxfiska frá því í vor þar sem farið er yfir rannsóknir á fiskistofnum í vatnakerfi Elliðaánna 2013, sem sjá má hér.

Fjöldi gönguseiðanna í Elliðánum sumarið 2014 lofar því vægast sagt góðu einn og sér varðandi laxgengd í árnar 2015.  En sem sem fyrr eru það lífsskilyrðin yfir sjávargöngu þessara laxa sem ráða að endingu hve mikið af þessum seiðum skila sér í Elliðaárnar í kjölfar ætisgöngunnar í hafi.  Hver sú tilhögun náttúrunnar verður liggur fyrir næsta sumar þegar smálaxinn sem hóf ferð sína sem gönguseiði 2014 skilar sér, en því til viðbótar mun lítið brot af göngunni að vanda skila sér sem stórlax og ganga í Elliðaárnar 2016 eftir um tveggja ára sjávardvöl.

Laxgengdin ekki upp á marga fiska

Nú er komið fram á þann tíma sumars að ætla verður að megindrættirnir í göngu laxa í íslenskar ár til hrygningar þetta sumarið liggi fyrir.  Göngur laxa í árnar sumarið 2014 eru sannarlega einstaklega rýrar og það sama á við um Elliðaárnar, þó svo að réttilega megi segja að hlutfallslega sé ástandið í þeim efnum þar á bæ þó betra en víðast í íslenskum ám þegar litið er til veiði sumarsins hingað til.  Elliðaárnar eru á meðal aflahæstu ánna, svo sem sjá má á listanum yfir laxveiðina 2014 á vef Landsambands veiðifélaga hér. Sérstaklega geta þó laxveiðimenn í Elliðaánum  vel við unað þegar litið er til þess hver meðalveiðin er á stöng. Þrátt fyrir að ástandið sé ágætt í Elliðaánum hvað veiðina varðar samanborið við aðrar ár þá gildir ef framgangurinn verður í takti við laxgengdina fram til þessa að mikil líkindi eru á því að mun minna verði eftir af hrygningarlaxi í ánum í haust en verið hefur um langt árabil. Ef þetta gengur eftir má vænta þess að sama ástand verði upp á teningnum í mörgum laxveiðiám á Suðvestur- og Suðurlandi þar sem veiðihátturinn veiða og sleppa er ekki ráðandi, því  eins og dæmin sýna þá eru megin sveiflurnar í laxgengdinni  í ám á þessu svæði keimlíkar.  Þetta ástand ætti að vera hvatning til þeirra veiðimanna í Elliðaánum sem hallir eru undir það að sleppa laxi að íhuga hvort þeir vilji landa báðum þeim tveimur löxum sem má landa þar á hvert leyfi eða víkja frá því viðmiði í ljósi þess hve líklegt er að laxinn verði sérlega fáliðaður í hrygningunni á komandi hausti.

"Blái" laxinn

Þegar kom fram í júlí urðu veiðimenn varir við bláleitan lax í Sjávarfossi. Mynd náðist af laxinum sem sjá má hér, en hún sýnir vel sérstöðu laxins hvað litinn varðar en vissulega þekkist vel hjá nýgengnum silfurslegnum löxum að þeir hafi bláan blæ svo sem endurspeglast í orðatiltækinu "áin er blá af laxi".  Á endanum veiddist laxinn í Sjávarfossi þann 21. júlí. Veiðimaðurinn naut litar laxins skamma hríð, því þegar laxinn var allur var litadýrðin horfin.  Í ljós kom að laxinn hafði verið veiddur og örmerktur í hefðbundinni vöktunarvinnu Laxfiska þegar hann hélt til hafs sem gönguseiði árinu áður þann 26. maí 2013. Þá var hann rúmir 11 cm að lengd og um 14 g að þyngd og því í smærri kantinum af gönguseiðunum. Þegar hann veiddist þá var hann einnig smár í samanburði við aðra smálaxa eða 49 cm og 1,3 kg.  Fróðlegt er til þess að hugsa að þegar laxinn var merktur sem seiði þá skar litaraft hans sig ekki frá öðrum gönguseiðum. Því fleygðu gárungar því að laxinn hefði blánað af skelfingu þegar sá sem þetta skrifar var að merkja hann og mæla sem seiði. Mikið var fjallað um laxinn "bláa" í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi, útvarpi og fréttablöðum enda forvitnilegur en væntanlega réð miklu um alla þá umfjöllun að á þessum tíma var svo kölluð gúrkutíð allsráðandi með tilheyrandi fréttaleysi. Tengil á vefsíðu Ríkisútvarpsins á eina af þessum fréttum er að finna hér, en þar er meðal annars komið inn á mögulega raunhæfa skýringu á lit laxins.

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080