Rannsókn á lífsháttum urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn

Hvaða urriðastofnar standa að baki veiðinni á veiðisvæðum OR í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík? 

Hvar halda þeir fiskar sig í Þingvallavatni þegar þeir dvelja ekki á þessum veiðisvæðum?

Hve stór er hrygningarstofn urriða af Ölfusvatnsárstofni?  

Hvar eru helstu dvalarstaðir urriða af Ölfusvatnsárstofni í Þingvallavatni á hverri árstíð? 

Hve mikið endurveiðist í Þingvallavatni af urriðanum sem fluguveiðimenn á veiðisvæðum OR sleppa, og hve mikið af honum skilar sér í árnar til hrygningar?

Svör við þessum spurningum og fleiri sem svara er leitað við,  eru nú byrjuð að skila sér frá rannsókn Laxfiska á lífsháttum urriða í sunnanverðu Þingvallavatni. Dæmi um þær upplýsingar má sjá í samantektinni hér að neðan auk þess sem komið er inn á markmiðin að baki rannsókninni og litið á aðferðafræðina sem öflun upplýsinganna byggist einkum á. Í lokin er komið inn á mikilvægi þess að nýta þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram til að tryggja hag Þingvallaurriðans enn frekar.

 

Markmið og gögn
Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar hóf vorið 2015 rannsókn á lífsháttum urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn. Rannsóknin sem mun standa fram á árið 2018 nýtur styrks frá Orkuveitu Reykjavíkur og er unnin í samstarfi við Ion fishing, leigutaka veiðiréttarins á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja lífshætti urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn og ennfremur að afla upplýsinga um það hvernig urriðar sem sleppt er í kjölfar stangveiði á þeim á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur skila sér að nýju inn í veiðina og til hrygningar. Ölfusvatnsá sem er í lögsögu Orkuveitu Reykjavíkur er skoðuð sérstaklega með hliðsjón af þeim urriðum sem mynda hrygningarstofn árinnar. Rannsóknin byggir öðru fremur á merkingum urriða þar sem í senn eru notuð hefðbundin útvortis fiskmerki og ýmsar gerðir rafeindafiskmerkja, en byggir einnig á fyrirliggjandi óunnum gögnum Laxfiska frá merkingum á urriða í sunnanverðu Þingvallavatni 2003-2014 sem unnin eru og sett fram. Merkingar eru framkvæmdar á veiðisvæðum OR við Þingvallavatn í Ölfusvatnsárósi og í Þorsteinsvík sem og á hrygningarfiski í Ölfusvatnsá sem einnig er í lögsögu OR. Merkingar á veiðisvæðum OR byggjast á stangveiddum urriða, bæði á geldfiskum og hrygningarfiskum. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar hafa gefið mjög fróðlegar og hagnýtar upplýsingar um urriða sem dvelja um lengri eða skemmri tíma á veiðisvæðunum í Þorsteinsvík og í Ölfusvatnsárósi og um urriða sem hrygna í Ölfusvatnsánni. Um leið hefur gagnsemi „veiða og sleppa” veiðifyrirkomulagsins sem nýlega var innleitt á veiðisvæðum OR verið staðfest.

 landfraedileg_voktun_urrida_nr4_2015_2016_thingvallavatn_laxfiskar

Gönguhegðun 5,5 kg hrygnu (númer 4) í Þingvallavatni með hliðsjón af viðveru hennar á þeim svæðum sem vöktuð voru með skráningarstöðvum sem starfræktar voru á tímabilinu frá því að hrygnan gekk úr Ölfusvatnsá í Þingvallavatn að aflokinni hrygningu í nóvember 2015, allt þar til gögn voru síðast lesin úr skráningarstöðvunum um miðjan september 2016. Dvöl á viðkomandi stöð fyrir hverja viku er gefin upp sem hlutfall af heildartíma viðkomandi viku á klukkustundargrunni. Hver stöð hefur sinn auðkennislit svo sem útlistað er á myndinni. Upplýsingar eru tilgreindar um fiskinn og skráningar hans sem og ljósmynd sem tekin var samhliða merkingu hans.


Landfræðileg kortlagning á viðdvöl og ferðum
Vöktun á dvöl hljóðsendimerktra urriða í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík og í norðurhluta Þingvallavatns skiluðu tæplega 82 þúsundum skráningum frá 14 urriðum, sem eru fyrstu gögn af þeim toga sem safnað hefur verið fyrir urriða af Ölfusvatnsárstofni. Á meðal þess sem kom fram er að hluti hrygningarstofns Ölfusvatnsár hefur vetursetu á svæðinu undan Ölfusvatnsárósi. Fróðlegt var einnig að sjá að bæði geldfiskar og hrygningarfiskar urðu uppvísir að því að dvelja í norðurhluta Þingvallavatns að vori og snemmsumars eftir að þeir hófu árlegar ætisgöngur sínar í kjölfar vetursetu. Skráð dvöl hljóðsendimerktra urriða á svæðinu við Ölfusvatnsárós sýnir að það svæði og næsta nágrenni í suðurhluta Þingvallavatns er mikilvæg ætisslóð Þingvallaurriða, sérstaklega að vori og fyrrihluta sumars. Jafnframt kom í ljós að urriðar á ætisgöngu nýta Þorsteinsvíkursvæðið umtalsvert. Einhver mesta skráða þaulseta fisks á því svæði var hjá 53 cm löngum geldfiski sem eyddi stórum hluta af tíma sínum þar í maí og júní líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Urriðarnir fóru almennt ítrekað á milli Ölfusvatnsáróss og Þorsteinsvíkursvæðisins frá vori til hausts.

 

landfraedileg_voktun_a_ferdum_urrida_nr13_2016_thingvallavatn_laxfiskar

Gönguhegðun 1,9 kg geldfisks (númer 13) í Þingvallavatni með hliðsjón af viðveru hans á vöktuðum svæðum frá því að hann var merktur í Ölfusvatnsárósi 2. apríl 2016 allt þar til síðasti aflestur gagna úr skráningarstöðvunum fór fram um miðjan september 2016. Dvöl á viðkomandi stöð fyrir hverja viku er gefin upp sem hlutfall af heildartíma viðkomandi viku á klukkustundargrunni. Hver stöð hefur sinn auðkennislit svo sem útlistað er á myndinni. Upplýsingar eru tilgreindar um fiskinn og skráningar hans sem og ljósmynd sem tekin var samhliða merkingu hans.


kort_yfir_ferd_urrida_i_april2016_thingvallavatn_laxfiskar

Loftmyndakort af Þingvallavatni þar sem merkt er inn ferðalag geldfisks um Þingvallavatn enda þess á milli í apríl 2016.  Tilgreint er hvenær urriðinn var merktur, stærð hans og tímasetningar fyrstu og/eða síðustu skráningar hans á skráningarstöðvunum.

Ferðir frá yfirborði til undirdjúpa og úr ískulda til ylstranda
Af þeim 5 urriðum sem merktir voru með mælimerkjum 2015 hafa nú þegar 2 urriðar endurheimst í rannsóknaveiðum á riðum. Þetta eru fyrstu gögnin frá mælimerkjum fyrir urriða af Ölfusvatnsárstofni. Þau gögn sem komin eru í hús spanna samfelldar mælingar í 1 ár og samanstóðu af 720 þúsund skráningum á fiskdýpi og öðru eins yfir vatnshita. Þar fengust upplýsingar um að hrygningarurriðar af Ölfusvatnsárstofni stunda ætisöflun skamma hríð í Þingvallavatni strax að aflokinni hrygningu í ánni, en nálægt áramótum er vatnshiti orðinn það lítill að veturseta tekur við. Veturseta með tilheyrandi iðjuleysi urriðanna á litlu dýpi stóð fram í mars-apríl en þá hófst megin ætisganga ársins hjá hrygningarfiskunum sem stóð fram að hrygningargöngunni um haustið. Á þeim tíma fór ætisöflun fiskanna að mestu fram í efstu 20 m vatnsins en mikið var þó um að fiskarnir færu daglega niður á meira dýpi. Mesta skráða dýpi sem urriði fór um var 74 m. Mælingar á vatnshita sem urriðarnir fóru um sýndu að hrygningarfiskar dvöldu í apríl og/eða maí frá fáeinum dögum upp í 3 vikur við strendur Nesjahrauns í Þorsteinsvík og næsta nágrenni þar sem volgt lindarvatn streymir út í Þingvallavatn.

arsferill_urrida_i_thingvallavatni_og_olfusvatnsa_2015_2016_laxfiskar

Mæligögn frá mælimerki sem hængur (5,8 kg og 78 cm) af Ölfusvatnsárstofni bar. Um er að ræða mælingar yfir ferðalag fisksins á 5 mínútna fresti í 1 ár frá merkingu hans á riðum í Ölfusvatnsá í nóvember 2015 fram til þess að hann var endurveiddur á sömu riðum Ölfusvatnsár í nóvember 2016.

Merkingar á urriða og endurveiðar
Gögn yfir það hvernig þeir 223 urriðar sem merktir voru 2015 á veiðisvæðum OR koma fram í veiði í Þingvallavatni 2015 og 2016, og í rannsóknaveiðum á riðum í Ölfusvatnsá og Öxará sömu ár sýndu að þeir 46 fiskar (21%) sem veiddust komu fram víðsvegar Þingvallavatni, auk þess að finnast á riðum ánna.  Úrvinnsla gagna frá merkingum á 518 urriðum í sunnanverðu Þingvallavatni árin 2003-2014, sem skilaði endurveiði á 74 þeirra (14,3%) árin 2003-2016, skerpti enn frekar myndina af uppruna urriðanna sem nýta sunnanvert Þingvallavatn og útbreiðslu þeirra í Þingvallavatni. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum þá er meirihluti geldfiska og hrygningarfiska sem veiðast í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárósi af Ölfusvatnsárstofni en gögnin sýna jafnframt að töluvert er þar um urriða af báðum þeim lífsstigum af Öxarárstofni. Endurveiði fiska er mest á veiðisvæðum OR og nærliggjandi svæðum sunnanvert í Þingvallavatni. Gögnin sýndu jafnframt að hluti fiskanna fór um nyrstu svæði Þingvallavatns í upphafi ætisgöngunnar að vori og snemma sumars og að ætisslóð þeirra var gjarnan á miðsvæði Þingvallavatns um mitt sumar.

Staðfesting á gagnsemi veiðifyrirkomulagsins „veiða og sleppa" á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur
Endurheimtugögn frá endurveiði merktra urriða hefur nú þegar staðfest gagnsemi þess að grundvalla stangveiði á veiðisvæðum OR á veiðifyrirkomulaginu „veiða og sleppa”. Fiskar frá merkingunni 2015 munu um sinn koma fram í veiðum og með hliðsjón af þeim viðbótargögnum sem og niðurstöðum merkinganna 2016 og 2017 þá verður hægt að leggja nákvæmt lokamat á gagnsemi veiðifyrirkomulagsins „veiða og sleppa”, bæði út frá endurveiði urriðanna á veiðislóð í Þingvallavatni og út frá þeirri gagnsemi sem felst í hrygningarþátttöku þeirra. 
Urriðastofn Ölfusvatnsár og veiðistofn urriða við sunnanvert Þingvallavatn sækir nú í sig veðrið sem aldrei fyrr í kjölfar þess að Orkuveita Reykjavíkur tók af skarið og breytti veiðinýtingu svæða sinna þannig að öll veiði þar byggist á ,,veiða og sleppa“ fyrirkomulagi. Þetta var mikið gæfuspor sem ION leigutakar útfærðu með miklum sóma og ekki skaðaði að fjármunir sem fengust vegna þessa, setti Orkuveita Reykjavíkur í rannsóknir á lífríki þessa svæðis, svo sem styrkur til þess rannsóknaverks er dæmi um. 

Fjölstofna atferlisrannsóknir á Þingvallaurriða hafnar
Fjöldi síritandi skráningastöðva fyrir hljóðsendimerki eru nú starfræktar um allt Þingvallavatn og gegna burðarhlutverki við að afla áður óþekkts ítarefnis um atferlisvistfræði urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn, þ.m.t. af hrygningarstofni Ölfusvatnsár. Laxfiskar hafa einnig tryggt sambærilega samtíma gagnasöfnun á grunni hljóðsendimerkja árið um kring um urriða af öðrum hrygningarstofnum. Bæði með merkingu á hrygningarfiski í Öxará 2015 og 2016 og einnig með merkingu á hrygningarfiski við Útfallið 2016 sem Landsvirkjun gerði mögulega. Umrædd rannsókn á urriðum sem nýta sunnanvert Þingvallavatn er því ekki einungis framsækin og metnaðarfull ein og sér, því hún er um leið kjölfesta fyrstu fjölstofnarannsóknar á atferli fiska hérlendis. Í þeirri vöktun er í fyrsta sinn í samtíma safnað gögnum yfir samsvæða fiska af mismunandi stofnum með vísun í landfræðilega staðsetningu þeirra hverju sinni.  

Ný gögn - Ný viðmið
Rannsóknagögnin hafa þegar skilað nýrri sýn á lífshætti urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn. Þessi gögn eru mikilvæg, ekki síst sem viðmið þegar taka skal upplýstar ákvarðanir sem varða Þingvallaurriða bæði nú og til framtíðar litið. Í ljósi þeirra nýju gagna þá er eðlilegt að veiðiréttarhafar við Þingvallavatn hefjist handa við að móta heildstæða meginstefnu um nýtingu urriðans í Þingvallavatni sem tekur mið af þeim upplýsingum. Ýmsir þættir koma þar við sögu, en grundvallaratriði sem nú hefur verið staðfest með afgerandi hætti, er að urriðar fara um allt Þingvallavatn á ætisgöngum sínum hvort heldur þeir hrygna í ám norðan vatns eða sunnan. Þessi fjölstofnauppruni urriða á helstu veiðisvæðum Þingvallavatns í lögsögu Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, er skýrt dæmi um þá sameiginlegu hagsmuni sem felast í urriðunum sem dvelja á þessum svæðum, þar með talið varðandi nýtingu þeirra.


Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080