There are no translations available.

  Laxgengd og veiði í Elliðaánum
- staðan 2019 í ljósi áranna 2011-2018
Jóhannes Sturlaugsson

 

Stangveiðimenn velta sem fyrr vöngum yfir veiðinni í ánum okkar sem víðast hefur verið dræm framan af þetta árið.  Sá er þetta ritar er nú að vakta fiskistofna í vatnakerfi Elliðaánna 9. árið í röð fyrir hönd rannsóknafyrirtækis síns Laxfiska og finnst við hæfi að setja fram gögn yfir laxgengd í Elliðaánum þau ár (2011-2019) til samanburðar. Slík stöðluð árleg vöktun á Elliðaánum  hefur verið samfelld í 32 ár, en fyrstu 23 árin sinnti Veiðimálastofnun henni. Ekki þarf að fjölyrða um gagnsemi þess að til séu slík langtímagögn og benda má á að Elliðaárnar eru meðal annars notaðar sem einkennisá til viðmiðunar fyrir laxveiðiár á nærliggjandi svæðum landsins. Þannig er til að mynda stuðst við árleg gögn yfir stærð gönguseiðastofns laxins í vatnakerfi Elliðaánna og staðfesta lifun þeirra laxa yfir sjávardvölina. Slík langtíma vöktunargögn gefa færi á að ráða í stofnstærðarsveiflur sem stangveiðimenn þekkja svo vel frá veiðum sínum á laxi, sveiflur sem ráðast í senn af áhrifaþáttum í ferskvatni og í sjó. 


Í ljósi umræðunnar um veiði þessa árs þá er fróðlegt að líta á það hvernig laxgengdin þetta árið í Elliðaánum lítur út miðað við árin 2011-2018.  Heildarganga laxa í Elliðaárnar er skráð með nákvæmum hætti árlega, annarsvegar út frá kvikmyndafiskteljara sem er örstuttan spöl frá sjávarósi og hinsvegar út frá stangveiði á laxi sem er landað neðan þess kvikmyndafiskteljara.  Hér set ég fram nokkur gröf sem sýna laxgengdina til og með 14. júlí frá 2011-2019. Þar er sýndur fjöldi laxa sem laxagangan samanstendur af þessi ár yfir nefnda byrjun göngunnar. Bæði út frá fjölda laxa sem luku á því tímabili göngu upp fiskteljarann undan rafstöðvarhúsinu í Elliðaárdalnum og út frá fjölda laxa sem var landað neðan fiskteljarans á því timabili.  Þau gögn sýna að heildarganga laxins á þessum fyrstu 25 dögum veiðitímabilsins í Elliðaánum er töluvert breytileg á milli ára. Um leið sýnir þessi samanburður að laxgengdin í Elliðaárnar á þessum 9 árum hefur í tvígang verið slakari en nú er þegar komið var fram í miðjan júlí (2014 og 2015) og veiðin á sama tímapunkti var einnig slakari 2014 en sambærileg 2015 við það sem nú er.  Á meðal myndanna sem sýna samanburð á laxgengd í Elliðaánum á milli ára er mynd sem sýnir hve stórt hlutfall af árlegri göngu laxa í Elliðaárnar hefur verið komið í árnar 14. júlí, í samanburði við það sem gekk í árnar síðar að sumrinu. Nokkuð sem er fróðlegt að skoða þegar menn velta fyrir sér hver heildarlaxgengdin verði þetta árið í Elliðaánum og framhaldið á gangi veiðinnar sem laxgengdin stýrir að miklu leyti.  

 

1_ellidar-upphaf_laxagongunnar 2011-2019_johannes_s_laxfiskar

 

 

2_ellidar-upphaf_laxagongunnar 2011-2019_johannes_s_laxfiskar

 

 

3_ellidar-upphaf_laxagongunnar vs heild_hlutfallslegur_fjoldi_ 2011-2018_johannes_s_laxfiskar

 

 

Vegna þess hve veiðin í Elliðaánum hefur verið góð framan af þegar litið er til annarra laxveiðiáa, þá fannst mér við hæfi að sýna tölfræðina að baki þeirri laxveiði hér í höfuðstaðnum. Því set ég fram graf sem sýnir þær 9 veiðiár sem eru með besta laxveiði að meðaltali á hvern stangardag 2019 fram til 10. júlí. Þau gögn byggja á gögnum frá Landsambandi Veiðifélaga og taka tillit til fjölda þeirra stanga sem standa að baki veiðinni fyrir hverja viku frá upphafi veiðitíma í þeim ám. Gögnin sýndu að Elliðaárnar voru 10. júlí síðastliðinn með þriðju bestu veiðina á landsvísu þegar litið er til veiðinnar með hliðsjón af þeim stangardögum er að baki veiðinni stóðu. Hvað heildarveiðina á laxi varðaði þá var veiðin í Elliðaánum í því efni á sama tíma í 6. sæti yfir landið. Nú fer næsta vikusamantekt Landssambands Veiðifélaga yfir  laxveiðina að birtast, sem Björn Theódórsson setur tryggilega fram að venju. Þá hefur veiðin vissulega aukist í þeim ám sem hér er fjallað um miðað við 10. júlí, þar með talið í Elliðaánum - en síðla dags 16. júlí var búið að veiða 219 laxa í Elliðaánum og á sama tíma höfðu rétt tæplega 700 laxar gengið upp teljarann. 



5_ veidin i 9 aflahaestu anum 10jul2019

 


Myndin sem ég birti hér sýnir árlega laxveiði í Elliðaánum síðustu 20 árin.  Það er ánægjulegt að sjá hvað laxveiðin í Elliðaánum hefur að jafnaði verið góð síðasta áratug. Þetta er ekki síst gleðilegt í ljósi þess að á þeim tíma eru Elliðaárnar sjálfbærar, því laxaseiðum var síðast sleppt 2007 og laxar frá slíkum sleppingum koma því ekki við sögu veiðanna frá og með 2010. 

   

4_ellidar-arleg veidi i ellidaanum sidustu 20 ar -1999-2018

 

Síðasta myndin sem ég birti hér (bætt inn 18/7) sýnir stærð hrygningarstofns Elliðaánna. Kvótasetning laxveiðinnar í Elliðaánum (2 laxar á vakt sem má landa en stunda má veiða og sleppa því til viðbótar) er sérlega mikilvæg forsenda þess að tekist hefur að tryggja góðan hrygningarstofn í Elliðaánum. 


6_arleg ganga lax i ellidaar 2011_2018_vs_hrygningarstofn-johannes sturlaugsson laxfiskar


                                                                          

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080