• Skoða sem PDF skjal

Niðurstöður fiskirannsókna í vatnakerfi Elliðaánna 2022

Jóhannes Sturlaugsson


Ellidaar-fiskteljari-2022-LAXFISKAR2

Myndin hér að ofan sýnir 3 merkta laxa í fiskteljaranum í Elliðaánum í júlí 2022 (2 örmerkta sbr. veiðiugga þeirra vantar og einn með útvortis slöngumerki sem sjá má neðan bakugga).


Niðurstöður árlegra rannsókna Laxfiska í Elliðaánum 2022 fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem unnar eru í samvinnu við Stangaveiðifélag Reykjavíkur vitnuðu um að stofnar lax og urriða í Elliðaánum væru í mjög góðu ástandi. Niðurstöðurnar voru settar fram í 2 skýrslum. Annars vegar í árlegri skýrslu langtímavöktunar á fiskistofnum í vatnakerfi Elliðaánna Elliðaár 2022 - Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins og hins vegar í skýrslunni Árbæjarkvísl Elliðaánna - Fiskirannsóknir 2022

 

Ganga laxins í Elliðaárnar 2022 samanstóð af ríflega 1600 löxum sem nánast allir tóku þátt í hrygningunni því laxveiðar í ánni byggja alfarið á því að veiða og sleppa. Enduheimtur á afturbata hoplaxi sumarið 2022 frá merkingum á hrygningarlaxi í Árbæjarkvísl 2021 gáfu forvitnilega innsýn í vægi hrygningarlaxa á því lífsskeiði í göngu laxins í Elliðaárnar 2022. Talningar í Árbæjarkvísl á hrygningartíma 2022 sýndu að þá voru þar á bilinu 192 til 212 laxar eða um 8% af þeim löxum sem gengu í Elliðaárnar það sumar. Seiðabúskapur í vatnakerfi Elliðaánna var góður 2022.  Góð staða laxins í  Elliðaánum vitnar um gott ástand vistkerfis þessarar gersemi Reykjvíkurborgar.

  • Skoða sem PDF skjal

Útbreiðslusvæði Atlantshafslax í hafi endurskilgreint

Jóhannes Sturlaugsson

Nú í júní 2021 birtist í vísindaritinu Nature Scientific Reports greinin „Redefining the oceanic distribution of Atlantic salmon“, sem var afrakstur fjölþjóðlegrar rannsóknar á Atlantshafslaxi. Víst er að niðurstöðurnar gerbylta þekkingu okkar á lífi laxins í Atlantshafinu. Höfundur þessara orða var af Íslands hálfu þátttakandi í umræddri rannsókn. Gagnasöfnunin byggði á því að nota gervitunglafiskmerki til að fylgjast með ferðum laxa í sjó, sem gerði kleift að afla einstakra upplýsinga – allt frá landfræðilegri útbreiðslu laxanna til hegðunar þeirra og umhverfisaðstæðna hverju sinni. Merkingarnar mínar í rannsókninni á íslenskum laxi með gervitunglafiskmerkjum mörkuðu um leið innleiðingu þeirrar tækni í fiskirannsóknum á Íslandi.

atlantic_salmon_from_laxa_iceland-migration_route_from_po-up_satellite_ tag_data-laxfiskar-johannes_sturlaugsson

Í rannsókninni sáu stórlaxar úr Laxá í Aðaldal um að mæla eigin ferðir þ.m.t. dýpið sem þeir fóru um og umhverfi sitt með hliðsjón af sjávarhita og ljósmagni. Þar var um að ræða hoplaxa sem lifað höfðu af hrygninguna og vetrardvölina í ánni. Laxarnir voru stangveiddir um vorið á leið sinni til sjávar, nestaðir með gervitunglafiskmerkjum fyrir sjóferðina og fluttir rétt út fyrir sjávarós árinnar í Skjálfandaflóa. Laxfiskar kostuðu verkefnið sem naut auk þess styrks úr Fiskræktarsjóði og er eins og áður segir hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni þar sem laxar hafa verið merktir með gervitunglafiskmerkjum í Noregi, Danmörku, Írlandi, Spáni og við Grænland auk merkinganna hérlendis. Óhætt er að segja að þessar alþjóðlegu rannsóknir undir forystu Auduns Rikardsen hjá Háskólanum í Tromsø í Noregi hafi gerbreytt þekkingu á gönguleiðum og ætissvæðum laxa í Atlantshafi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu strax hve mögnuð þessi rannsóknartækni er þegar í hlut eiga langferðalangar fiska, líkt og laxinn er sérlega gott dæmi um. 

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Kastljóss (2012) um minn þátt í rannsókninni og um niðurstöður frá öðrum rannsóknum mínum á göngum laxins í sjó.

lax_i_sjo-kastljos_fjallar_um_kortlagningu_a_ferdum_laxins

  • Skoða sem PDF skjal

Forsvarsaðilar Hafrannsóknastofnunar sniðgengu lög og vandaða stjórnsýsluhætti er þeir notuðu og birtu í leyfisleysi óbirt rannsóknargögn Jóhannesar Sturlaugssonar / Laxfiska

Jóhannes Sturlaugsson

 

Í áliti sem Umboðsmaður Alþingis birti nýverið vegna kvörtunar á starfsháttum þáverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og sviðsstjóra hjá sömu stofnun, er að finna áfellisdóm er tekur til þess skorts á vísindasiðferði sem þar var til umfjöllunar. Hafrannsóknastofnun varð uppvís að því að taka, nota og birta óbirt rannsóknargögn í eigu Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum í desember 2018 án vitneskju hans eða leyfis. Um var að ræða arfgerðargögn frá eldislöxum úr Fífustaðadalsá í Arnarfirði og tilheyrandi upprunagreiningu þeirra. Í kjölfarið kvartaði eigandi gagnanna í byrjun janúar 2019 til Hafrannsóknastofnunar yfir þeim vinnubrögðum. Í því skyni að lenda þessu máli var forsvarsaðilum Hafrannsóknastofnunar síðan boðinn sá kostur að biðjast afsökunar á framferði sínu. En einnig þyrftu þeir að sjá til þess að þar sem gögnin voru birt af hálfu Hafró sem eigin gögn væru, þá væri tilgreint að þar væru um að ræða gögn Jóhannesar/Laxfiska. Skemmst er frá að segja að forsvarsaðilar Hafrannsóknastofnunar virtu ekki þá bón. Vegna umræddra starfshátta var kvartað til Umboðsmanns Alþingis sem tók málið til meðferðar og lauk því með áliti því sem birt var 30. apríl 2021. Að neðan er að finna hlekk á það álit Umboðsmanns Alþingis. Hér er við hæfi að nefna sérstaklega fimm atriði sem komið er inn á því áliti Umboðsmanns Alþingis (1-5):

 


1. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram það ólögmæti og siðleysi sem fólst í því af hálfu forsvarsaðila Hafrannsóknastofnunar að nota og birta óbirt rannsóknargögn Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum án hans leyfis.


2. Í áliti Umboðsmanns Alþingis er vikið orðum að tölvupóstum frá fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar til Jóhannesar Sturlaugssonar eiganda Laxfiska með vísun í innihald þeirra og með hliðsjón af reglum er gilda um hátterni opinberra starfsmanna (sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996). Í því sambandi telur Umboðsmaður Alþingis rétt „að ítreka að Hafrannsóknastofnun og starfsmönnum hennar ber í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að haga samskiptum sínum við þá sem til hennar leita með þeim hætti að gætt sé hlutleysis, sanngirni og fyllstu kurteisi í garð þeirra sem leita til stofnunarinnar með erindi sín.“


3. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að forsvarsaðilar Hafró biðjast ekki afsökunar á framferði sínu fyrr en eftir ítrekuð tilmæli þar að lútandi frá Umboðsmanni Alþingis.


4. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að forsvarsaðilar Hafró urðu ekki við þeirri beiðni að geta eiganda rannsóknargagnanna þar sem þau voru birt af þeirra hálfu sem eigin væru (í veffrétt og síðar í skýrslum).


5. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að þáverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar greindi Umboðsmanni Alþingis ranglega frá málavöxtum.

 

Álit Umboðsmanns (Mál. nr. 10358/2020) er að finna á eftirfarandi hlekk: https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/8596/skoda/mal/

 

Morgunblaðið fjallaði um málið 11. maí, bæði ítarlega í blaðinu og einnig á vefsíðu sinni: https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/05/11/hafro_birti_rannsoknargogn_an_leyfis/


  • Skoða sem PDF skjal

Atferli bleikju í Þingvallavatni skráð árið um kring

Jóhannes Sturlaugsson

 

Ferðir fiska af mörgum tegundum og stofnum er einn af þeim þáttum náttúrunnar sem eðli málsins samkvæmt hefur lengst af verið mönnum hulinn í smáatriðum. Með tilkomu rafeindafiskmerkja hafa opnast ýmsir möguleikar til að afla ítarlegra upplýsinga um hegðun og umhverfi (atferlisvistfræði) fiska, jafnvel svo árum skiptir. Undangengin 22 ár hef ég árlega rannsakað atferlisvistfræði urriða í Þingvallavatni með rafeindafiskmerkjum. Jafnvel þó svo að ég hafi lítillega notað rafeindafiskmerki til að skoða hegðun bleikju í Þingvallavatni á árum áður (2007-2008), þá var það ekki fyrr en sumarið 2018 sem ég notaði þá tækni til að afla samfelldra atferlisgagna um bleikjurnar árið um kring í Þingvallavatni. Í þeirri vöktun minni á hegðun bleikjanna þá eru rafeindafiskmerki af gerð hljóðsendimerkja grundvöllur gagnasöfnunarinnar, sem og tilheyrandi síritandi skráningastöðvar sem starfræktar eru vítt og breitt um Þingvallavatn. Þannig gefst færi á að kortleggja landfræðilega staðsetningu bleikjanna árið um kring, annað atferli þeirra (fiskdýpi) og vatnshitann sem þær upplifa. Slíkar upplýsingar eru einnig skráðar fyrir þá urriða sem vaktaðir eru með sama hætti.

Ég hef nú þegar merkt með hljóðsendimerkjum 17 bleikjur af þremur svipgerðum. Þar er um að ræða murtu, kuðungableikju, og ránbleikju, en dvergbleikjan sem stendur fyrir fjórðu svipgerð bleikjanna í Þingavallavatni hefur enn ekki komið við sögu rannsóknarinnar. Rannsókn þessi hefur skilað um 200 þúsund skráningum frá ferðum bleikjanna, yfir tímabilið frá sumrinu 2018 þar til gögnum var síðast hlaðið niður sumarið 2020.

Rannsóknin hefur þegar leitt í ljós að hluti fiskanna sem fylgt var eftir, allt frá murtum sem voru í kringum 20 cm að lengd til stórvaxinna bleikja, áttu það til að nýta sér öll helstu svæði Þingvallavatns á innan við einu ári. En jafnframt voru dæmi um það að bleikjur héldu sig á vissum svæðum vatnsins árið um kring. Landfræðilegu upplýsingarnar yfir dvalarstaði bleikjanna gefa færi á að afmarka hrygningarsvæði þeirra, vetursetusvæði og svæðin sem ætisgöngurnar taka til.

Úr hópi bleikjanna má nefna fróðlegar upplýsingar frá tæplega tveggja ára röð skráninga á ferðum stærstu bleikjunnar, sem var 15 ára og 62 cm löng þegar hún veiddist sumarið 2020. Sá fiskur dvaldi víða í syðri hluta vatnsins þar sem hann var merktur og fór einnig um miðbik vatnsins en gekk aldrei í nyrsta hluta Þingvallavatns. Skráningar þess fisks sýndu fróðlega vanafestu í ferðum fisksins m.t.t. árstíma þessi 2 ár.

Hitamælingarnar sem bleikjurnar framkvæmdu á ferðalögum sínum sýndu ennfremur að þegar kaldur faðmur vetrarins umvefur undirdjúp Þingvallavatns, þá áttu bleikjurnar það til að dvelja á svæðum þar sem yls naut við vegna innstreymis volgra linda undan Nesjahrauninu.

Þegar litið er til atferlis murtunnar þá hefur rannsóknin ekki einungis gefið nýja innsýn í hvernig sá smái og knái fiskur fer vítt og breitt um vatnið með hliðsjón af árstíma, heldur einnig skilað sérlega fróðlegum upplýsingum um á hvaða dýpi murtan heldur sig á hverjum tíma; allt frá yfirborði og niður á 100 metra eða meira á dýpstu svæðum Þingvallavatns.

      bleikja_rnr4_murta_thingvallavatni-dvalarsvaedi_atferli_yfir_1_ar-johannes_sturlaugsson_laxfiskar

 

Bleikjan í Þingvallavatni hefur lengi vakið forvitni þeirra sem rannsakað hafa fiska í ferskvatni hérlendis. Sporgöngumaður íslenskra fiskirannsókna, Bjarni Sæmundsson rannsakaði bleikjuna í Þingvallavatni í lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar. Þá setti Bjarni fram upplýsingar um þessar 4 svipgerðir bleikja á grunni þeirra nafngifta sem bændur við vatnið notuðu á þeim tíma til aðgreiningar á þeim. Bleikjan í Þingvallavatni var síðan rannsökuð ítarlega á margvíslegan máta þegar kom fram á 20. öldina og góða samantekt um þær rannsóknir er að finna í bókinni Þingvallavatn - undraheimur í mótun (2002), sem Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson ritstýrðu (sjá kaflann Bleikjan: Sigurður S. Snorrason o.fl.). Það er síðan sumarið 2018 sem nýr kafli hófst í rannsóknum á bleikjunni í Þingvallavatni með umræddri vöktun minni í Þingvallavatni árið um kring á atferlisvistfræði bleikja af mismunandi svipgerðum.

Rannsókn mín á atferlisvistfræði bleikju í Þingvallavatni kallast á við atferlisrannsóknir mínar á urriðanum í Þingvallavatni. Gögnin sem rannsóknin skilar gera í senn kleift að kortleggja meginmynstrið í árstíðabundinni hegðun bleikja af mismunandi svipgerðum, en um leið þann breytileika sem fyrirfinnst í hegðun einstaklinganna. Skráningar árið um kring í Þingvallavatni er sýna dvalarsvæði bleikja, aðra hegðun þeirra og vatnshitann sem þær upplifa, voru framkvæmdar á sömu svæðum á sama tíma á sama hátt fyrir urriða af 3 stofnum (Öxará, Ölfusvatnsá og Útfalli). Þessi samhliða skráning á atferlisvistfræði bleikja af mismunandi svipgerðum og fyrir urriða af mismunandi stofnum, er gott dæmi um hvernig auka megi gagnsemi atferlisrannsókna á fiskum. Sem hér er gert með því að beita skilvirkri nútímatækni í rannsóknum til að framkvæma ítarlegar og hagnýtar atferlisrannsóknir á fiskum yfir víðfeðm svæði, þar sem landfræðileg útbreiðsla er kortlögð jafnhliða. Rannsókn sem gerir kleift að safna samtímis upplýsingum um mismunandi fisktegundir, fiskistofna og svipgerðir fiska, auk þess sem skoða má hegðun fiskanna nánar út frá stærð þeirra, lífsstigi, kyni og kynþroskaástandi. Rannsóknin vitnar jafnframt um þá spennandi möguleika sem felast í því að skrá samhliða upplýsingar um afræningja og bráð hans, líkt og tilfellið er í rannsókn minni á stórurriðanum og helstu bráð hans murtunni.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Stöðvar 2 um rannsóknina í fréttum þann 2. október 2020.

bleikja_i_thingvallavatni-atferlisrannsokn-johannes_ sturlaugsson-laxfiskar

 

  Elsti urriði Þingvallavatns 19 ára 2019                 

Jóhannes Sturlaugsson     

                      thingvallaurridi-brown_trout-salmo_trutta-copyright_johannes_sturlaugsson_laxfiskar

Urriðahængur í Öxará

Við rannsóknir mínar á Þingvallaurriðum 2019, þá veiddi ég meðal annars í Öxará nokkra afgamla urriða sem þar voru mættir til hrygningar um haustið. Einn þessara elstu kunningja minna í Öxará var 19 ára urriði. Á þeim 12 árum sem liðin voru frá því að sá urriði gekk fyrst til hrygningar, þá sýna skráningar að 8 þeirra ára var hann mættur til hrygningar svo staðfest sé. Á meðan þessum ellibelg endist aldur til, þá verður fylgst náið með honum næstu misserin með hjálp sendimerkis sem hann fékk að viðskilnaði. Þessi háaldraði urriði og jafnaldrar hans vitna um hve háum aldri Þingvallaurriðar geta náð - og eru reyndar elstu Þingvallaurriðar sem staðfestar sögur fara af. Þessi staðreynd minnti mig um leið á það að mínar árlegu rannsóknir til rétt ríflega tuttugu ára á þessum konungum og drottningum íslenskra ferskvatnsfiska, eru núna fyrst mögulega að nálgast það að ná utan um ævispönn elstu fiskanna er hófu lífsgöngu sína þegar ég var að byrja þessar rannsóknir mínar.

Rannsóknir sýna að enn stækka hrygningarstofnar Þingvallaurriða             

Vöktun mín/Laxfiska á hrygningarstofnum Öxarár og Ölfusvatnsár sýnir að stærð hrygningarstofna þessara áa er í sögulegu hámarki og hefur ekki um áratugaskeið náð öðrum eins hæðum. Í þeim efnum vísa ég til vöktunar minnar á hrygningarstofnunum á 21. öldinni, en einnig almennra frásagna frá ofanverðri 20. öld þegar svo lítið var um urriða í Þingvallavatni að það var farið að tala um Þingvallaurriða í þátíð. Haustið 2019 hrygndu um 3000 Þingvallaurriðar og megnið af þeim í Öxará. Þar sem hluti hrygningarfisks hjá Þingvallaurriða tekur sér eins árs hlé frá hrygningu og jafnvel lengur þá verður að ætla að fjöldi hrygningarfiska Þingvallaurriða sé nú ekki undir fjórum þúsundum.

Síða 1 af 7

Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080